31.10.2024 | 11:02
Hrekkjavaka
Hola,
Nú er síðasti dagur októbermánaðar og ekki laust við að kvefið sé farið að sækja á mann. Á þeim nótunum er ekki úr vegi að þakka fyrir hvern dag sem finnska gubbupestin heldur sig fjarri. Nú eru liðnir tveir mánuðir og 27 dagar síðan ég barðist í bökkum við pestina og verður að segjast að sólin skíni bjartar hér þennan þó hálfskýjaða októbermorgun heldur en hún gerði þessa örlagaríku gubbuviku í Turku.
Bestu kveðjur,
Hallveig
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
6.8.2024 | 18:07
Þremur árum síðar
Terve,
Þrjú ár og rúmlega það eru liðin frá því að ég bloggaði hérna síðast og það má með sanni segja að ótal margt hafi gerst síðan þá, en þá má helst nefna að eftir þessa stuttu heimsókn fyrir þremur árum þá sótti ég um nám hér og flutti til Finnlands, eignaðist barn sem fékk finnska kennitölu og er meira að segja búin að læra nokkur orð í finnsku.
En nærtækast er kanski að segja frá því að fyrir tveimur dögum tókst mér að næla mér í finnska gubbupest. Sú finnska er frekar svipuð þeirri íslensku, ef eylítið ágengari og verð ég að segja að þetta er ekki mín uppáhaldsupplifun hér í Finnlandi. Framar mætti telja nýjungar á borð við allskonar sánur, víkkaðan sjóndeildarhring, nýja vini, spennandi uppfærslur í leikhúsunum og gott veður. En þær verða ekki raknar hér því akkúrat núna kemst fátt að annað en vatnsglasið sem ég er að rembast við að koma ofan í mig og súpan sem Birnir eldaði en ég hef eingöngu náð að borða tvær skeiðar af.
Hyvät ajat,
Hallveig
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Moika,
Á mánudagsmorgunn fór ég í síðasta COVID-testið í bili, vona ég. Ég mætti á staðinn, settist niður og fékk þar stroku í nef (ekki háls). Prófið gekk snuðrulaust fyrir sig og var frítt, annað en 10.600 krónurnar á Íslandi og 1499 SEK í Svíþjóð. Finnland ber því skýran sigur úr býtum í þessum samanburði.
Aðfararnótt þriðjudags bárust mér síðan þau jákvæðu skilaboð að prófið hefði reynst neikvætt og ég væri nú laus úr sóttkví. Skilaboðin sá ég um morguninn og eins og kálfur að vori, strunsaði ég samstundis út í bakarí og keypti mér bakkelsi í morgunmat, himinlifandi yfir því að geta um frjálst höfuð strokið. Sama dag fékk ég mitt fyrsta faðmlag í 9 daga frá Selmu Reynisdóttur, samstarfskonu minni og góðvinkonu.
Í dag flutti ég úr airbnb-inu sem ég hafði leigt fyrir sóttkvínna og flutti heim til Önnu og Louis, annarra góðvina minna. Í sporvagninunm á leiðinni reyndi ég að kaupa miða með appi sem virkaði ekki, og fékk 80 Evru sekt. Það gera 12172 íslenskar krónur.
Bestu kveðjur
Hallveig
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
14.3.2021 | 17:12
2 dagar frá komu til Finnlands // Vika frá áætlaðari komu
No, katso, kuka meillä on täällä!
Ég komst semsagt til Finnlands.
Ég vaknaði fyrir sólarupprás á föstudagsmorgunn, steig út í snævi þakinn Stokkhólminn og komst snuðrulaust upp í vél við hlið 13B á Arlanda flugvelli. FinnAir játaði á sig mistök og sögðu að þau hefði átt að hleypa mér í gegn frá upphafi. Fólk er eitthvað lítið í sér yfir þessum heimsfaraldri sögðu þau. Eða eitthvað álíka. Fékk enga almennilega skýringu á þessu.
Síðan mætti ég á flugvöllinn í Helsinki (flugið tekur léttar 70 mínútur), labbaði í gegn um nánast tóman flugvöllinn, og fór síðan í röðina fyrir vegabréfaeftirlitið. Þar tók á móti mér ungur, vopnaður maður í einkennisbúning sem sagði mér nú að hinkra aðeins við, og lét mig síðan standa fyrir framan hann í 10 mínútur á meðan hann skoðaði gögnin mín.
Sagði mér síðan að koma með sér og lét mig bíða inni í mannlausu, lokuðu herbergi í aðrar 7 mínútur. Kom síðan til baka, sagði að jú, þetta ætti nú að vera í lagi og þá dró ég loks andann.
Selma mætti mér í miðbænum og gaf mér kakó og pulla. Pulla er ekki pulsa heldur snúður.
Nú er ég í airbnb íbúð á meðan ég er í sóttkví. Íbúðina leigi ég af góðlegum manni sem kallar sig Bob, sem ég er búin að vera í heilmiklum samskiptum yfir netið. Eða, það hélt ég. Þegar ég kom í íbúðina sá ég að Bob hafði verið einkar iðinn við að merkja sér ýmsa muni í íbúðinni sinni. Bolla, skrautstjaka, vatnsflöskur, sjampóbrúsa - allt merkt með hans nafni í snyrtilegu letri. Það var þá sem ég áttaði mig á því að Bob er ekki maður, heldur fyrirtæki.
Selma er búin að vera svo falleg að koma með vistir handa mér á meðan ég afplána einangrunina og á morgun fer ég síðan í finnskt COVID test. Allt er jú þá þrennt er.
Næst fáið þið vonandi að lesa sögur af minna spennandi hlutum á þessu ferðalagi heldur en landamæraóróa.
Sali oli dippu dippu dippu dippu dippu dillei!
-Hallveig
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
11.3.2021 | 07:01
4 dagar frá áætlaðari komu til Finnlands // 1 dagur í brottför
Hej allihopa,
Í gærmorgun fór ég í COVID-test hér í Svíþjóð, fyrir áætlað ferðalag mitt til Helsinki í fyrramálið. Þar sem ég er að forðast almenningssamgöngur ákvað ég að ferðast á fæti, en læknastöðin 50 mínútur í burtu. Prófið var kl 08:30 og Stokkhólmsbúar sem sáu mig þann morguninn hafa hugsað "Þarna fer hraust ung dama, að trimma samviskusamlega fyrir vinnu" en raunin var sú að ég var sein og þurfti að hlaupa alla leiðina.
Þegar komið var að Arbetargatan 26 mættu þar mér snyrtilegir og jákvæðir læknar, sem rukkuðu mig 1495 SEK og buðu mér svo inn á einkastofu með inniröddinni. Og þar, kæru vinir, fékk ég afbragðsgott ráð frá góðri konu sem ég er spennt að deila með ykkur.
"When the stick is down your nose, wiggle your toes!"
Og þetta gerði ég og viti menn, það var varla að ég finndi fyrir sýnatökupinnanum. Ég mæli eindregið með að öll fylgi þessu ráði sænska læknisins næst þegar þið farið í sýnatöku.
Nú bíð ég með hjartað í buxunum eftir niðurstöðum, en þær taka um 36 klukkustundur að berast.
Það væri nefninlega ákveðin synd að vera neitað um inngöngu í Finnland í þriðja sinn í þessari viku.
Ha det så bra och vicka på tårna!
-Hallveig
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
9.3.2021 | 15:47
2 dagar frá áætlaðari komu til Finnlands
Tjena,
Í dag er neikvæða COVID-19 prófið mitt formlega útrunnið.
Góðu fréttirnar eru þær að ég er komin í litla íbúð á Södermalm þar sem ég mun vinna fjarvinnu þangað til að ég fæ að vita eitthvað frá finnskum yfirvöldum, þar sem málið mitt er nú í ferli. Ég er búin leigja íbúðina næstu vikuna og get því verið hér róleg fyrir litlar 60.000 krónur, fyrirframgreiddar.
Enn betri fréttir eru þær að ég var að enda við að fá meldingu frá finnskum yfirvöldum um að ég megi víst koma til Finnlands og að það hafi verið gerð mistök á flugvellinum á sunnudaginn.
Þannig að ætli maður pakki ekki bara aftur ofan í tösku og fari að næla sér í nýtt COVID-19 próf!
Það sem stendur þó uppúr í dag er að ég að hitta góðvinkonu mína og bekkjarsystur Sigurlaugu Söru Gunnarsdóttur, sem er að passa hvolp. Hvolpurinn heitir Ture og er fimm mánaða.
Ha det bra,
Halllveig
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
7.3.2021 | 22:27
Brottfarardagur
Þegar ég horfi yfir farinn veg þykir mér harla ótrúlegt að það sé ekki nema fyrir litlum sólarhring síðan sem ég stóð grunlaus í röðinni á Læknavaktinni, að bíða eftir PCR prófinu mínu.
Þá hafði ég mestar áhyggjur af því að ég myndi annarsvegar ekki ná að sofna um nóttina fyrir flugið og hinsvegar að mér yrði ekki hleypt upp í vélina til Finnlands út af einhverjum ófyrirséðum ástæðum. Það sem ég vissi ekki þá, var að ég hafði bara laukrétt fyrir mér.
Nú sit ég í kjallaraherbergi í Nacka í Stockhólmi, þar sem æskuvinkona úr grunnskólanum í Lundi hefur skotið yfir mig skjólshúsi. Í dag horfði ég á tvær flugvélar, sem í voru sæti með mínu nafni, leggja af stað án mín og eyddi síðan 45 mínútum í leigubíl með bílstjóra sem spilaði frekar góða tónlist.
Í kvöldmatinn fékk ég makkarónur og falafelbollur og í eftirmat heimabakaða klessuköku frá Helenu Hansen, velgjörðarkonu minni.
Morgundagurinn er logandi spurningarmerki en eitt veitt ég: Ég er í vitlausu landi.
Ha det så bra!
Hallveig
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
6.3.2021 | 21:51
1 dagur í brottför
Moika.
Í gær fór ég á Heilsugæsluna í Hlíðum, sem er staðsett í íbúðarhúsi í Drápuhlíð, mér til mikillar furðu. Þar skráði ég mig í Covid-tékk og greiddi einar 7500 krónur fyrir. Í morgun fór ég síðan klukkan 11 upp á Suðurlandsbraut og lét testa mig, og það glwður mig að segja frá því að þetta var besta strokan hingað til! Nú hef ég beðið eftir að fá vottorð fyrir neikvæðu Covid-19 prófi á Læknavaktinni í Hvassaleitinu í 1 klukkustund og 49 mínútur, og greitt 3100 krónur fyrir. Alls eru þetta því 10.600 krónur sem ég greiði fyrir þetta próf og verður það að kallast vægt gjald fyrir eitthvað jafn dýrmætt og að stíga út fyrir landsins steina.
Síðan er bara að sjá hvernig flugferðin gengur á morgun.
Bless bless.
-Hallveig
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
1.3.2021 | 15:14
6 dagar í brottför
Hyvää päivää,
í dag eru 6 dagar í brottför. Ég hringdi í Iceland Air í dag og þau sögðu að flugið mitt myndi að öllum líkindum fara á áætlun, sunnudaginn 7. mars, en gætu svosem ekki lofað neinu.
Það verður spennandi að sjá hvað gerist.
Parhain terveisin,
Hallveig
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Um bloggið
Hallveig Kristín Eiríksdóttir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (28.4.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar